Fossabrekkur

Vegalengd: 11-12 km
Leið: Kleifar  Syðriárdalur  Möðruvallaarskál  Fossabrekkur - Héðinsfjörður
Mesta hæð: 680 m.
Göngutími: 7-8 klst.

Þegar farið er um Fossabrekkur er lagt upp sunnan við Gunnólfsá og upp með henni fram Syðrárdal og norðan við Syðrárhyrnu. Dalurinn allur er nokkuð á fótinn. Gengið er eftir dalnum sunnan árinnar og sem leið liggur fram í botn. Á hægri hönd þegar í dalbotninn er komið er fjallið Bangsahnjúkur, 890 m., og er nauðsynlegt að fara vel inn í botninn til að lenda ekki í skál sem nefnist Bangsaskál.

Síðasti spölurinn upp í skarðið er nokkuð brattur. Gengið er upp tvær melöldur og er sú fyrri brattari. Sveigt er til norðvesturs upp í skarðið. Þegar haldið er niður Héðinsfjarðarmegin er gengið niður allnokkurn bratta á jökli niður í svokallaða Möðruvallaskál, eftir það er greið leið niður í Héðinsfjörð. Komið er niður nokkru fyrir framan Vatn að eyðibýli sem heitir Grundarkot.

Gangan upp í skarðið frá Kleifum tekur um tvo til þrjá tíma og getur leiðin verið vandrötuð í slæmu skyggni. Mikið er um að vélsleðamenn fari þessa leið enda ekki önnur leið fær vélsleðum upp úr Árdal til Héðinsfjarðar. Niður að Grundarkoti er um fimm tíma gangur.