Grímubrekkur

Vegalengd: 13-14 km
Leið: Kálfárdalur  Grímubrekkur  Grímudalur  Upsadalur - Dalvík.
Mesta hæð: 930 m.
Göngutími: 6-8 klst.

Þegar valdar voru gönguleiðir milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur var að sjálfsögðu valin sú leið sem næst var þeim stað sem leggja skyldi upp frá. Ef farið var úr kaupstaðnum var Drangaleið valin, úr miðsveitinni var valið að fara Grímubrekkur og ef upphafsstaður var framsveitin varð Reykjaheiði fyrir valinu. En eina leiðin sem fær er hestum er þó Reykjaheiði. Þegar lagt er á Grímubrekkur er haldið upp frá bænum Kálfsá og gengið fram Kálfsárdal og komið niður í Grímudal sem er upp af Upsadal vestan Dalvíkur.

Leiðin yfir Grímubrekkur er mjög skemmtileg gönguleið, greiðfær þó að á nokkrum stöðum sé nokkuð bratt. Sem áður segir er gengið upp frá Kálfsá. Kálfsárdalur er lítið dalverpi sem gengur til suðurs og afmarkast hann af Nítuhnjúk, 955 m., og Lágafjalli að norðan og Hólshyrnu, 853 m. (líka nefnd Kálfsárhyrna), að sunnan. Á milli Nítuhnjúks og Lágafells er skál er nefnist Egilsskál en líka nefnd Kálfsárskál. Hólshyrna er eitt fegursta fjall í Ólafsfirði, hefur reglulega lögun, rís hátt og bratt upp af bæjunum Kálfsá, Kálfsárkoti og Hóli og setur mikinn svip á sveitina.

Fyrsti spölurinn upp frá Kálfsá er greiðfær og auðvelt er að rata þessa leið í björtu veðri, en eins og á öðrum leiðum í Ólafsfirði getur þar verið villugjarnt ef þoka hamlar sýn. Símalína var lögð um Grímubrekkur 1908 og sér enn fyrir vegarslóðum sem myndast höfðu er vinnuflokkar önnuðust viðgerðir á línunni. Línan er nú aflögð því með tilkomu Múlavegar var lagður sími þar. Enn sjást þó staurabrot sem minna á þessa lögn.

Gengið er upp með ánni að sunnan. Nokkrir fossar eru í henni og heitir sá fyrsti Stórifoss og þar upp af Litlifoss. Þegar komið er upp í dalsmynnið heitir Kálfsárháls, en hann nær frá Hólshyrnu (Kálfsárhyrnu) norður að ánni. Áður nefndur Kálfsárdalur ber raunar tvö nöfn, hann er nefndur Norðurdalur norðan árinnar en Suðurdalur sunnan hennar. Nokkurt graslendi er í dalnum og þá aðallega á afmörkuðum stöðum. Rétt framan við Kálfsárháls er Ystanef, nokkuð stórt grasigróið nef sem skagar út í ána, þar framan við er Fremstanef og milli þeirra Laugarhvammur en þar eru volgar uppsprettur. Syðst í Hólshyrnu eru grasigrónir hjallar er nefnast Grænuhjallar. Framarlega í dalnum tekur við stór háls er nær þvert yfir dalinn og nefnist hann Hávaði.

Er komið er upp á Hávaðann blasir skarðið við. Framundan er lítið vatn, Kálfsárdalsvatn, þar sem Kálfsá á upptök sín en í dalbotninum er lítill jökull. Á vinstri hönd er Bræðraleið en á hægri hönd Þröskuldur. Þegar farin er Bræðraleið er komið niður í Karlsárdal norðan við Dalvík, en ef farinn er Þröskuldur er farið niður að Hóli í Ólafsfirði og völdu menn þessa leið þegar komið var frá Dalvík ef fara átti fram í fjörðinn.

Er við göngum í átt að Grímubrekkum er á vinstri hönd gríðarstór skriða sem fallið hefur fram í dalinn og eru steinarnir í henni margir hverjir mörg tonn. Halda skal fram fyrir þessa skriðu og taka stefnu upp í skarðið. Bratt er síðasta spölinn. Staurabrot eru í skarðinu. Á hægri hönd er Einstakafjall, 1006 m., en sunnan við það er Reykjaheiði. Úr skarðinu sér út á Eyjafjörð í átt til Hríseyjar. Hægt er að ganga eftir eggjum í átt að Dröngum og er það skemmtileg gönguleið og er þá komið niður í Burstabrekkudal. Leiðin til Dalvíkur er greiðfær, að vísu er nokkuð bratt niður úr skarðinu en fljótlega komið í grónar hlíðar. Gangan tekur um fjóra til fimm tíma.