Farsæld barna í Fjallabyggð

Á Íslandi hafa ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) tekið gildi. Þessi lög, sem samþykkt voru á Alþingi 11. júní 2021, varða öll börn og ungmenni á Íslandi frá 0 - 18 ára aldurs.

Gildistaka laganna var 1. janúar 2022 en gert er ráð fyrir þriggja til fimm ára innleiðingartíma.

Athygli skal vakin á því að fyrsta skrefið í átt að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er beiðni forráðamanns um samtal við tengilið. Upplýsingar um tengiliði er að finna í glugganum Tengiliðir. 

SAMÞÆTTING

Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.

Markmið með samþættingu er: 

  • að samstarf vegna þjónustu við börn fari í skýrari farveg
  • að öll börn (0-18 ára) og foreldrar þeirra sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana og hafi aðgang að tengilið/málstjóra sem vísar þeim áfram ef þörf krefur

FARSÆLDARÞJÓNUSTA

Þeir sem veita börnum og foreldrum þjónustu eiga að:

  • fylgjast með velferð og farsæld allra barna
  • bregðast við þörf fyrir þjónustu
  • hafa samráð sín á milli til að veita góða þjónustu við hæfi

Þjónustuveitendur eru allir þeir sem veita farsældarþjónustu til barns og/eða foreldra

a. Ríki - t.d. heilsugæsla og önnur heilbrigðisþjónusta, lögregla, framhaldsskólar o.fl
b. Sveitarfélög - t.d. leikskólar, grunnskólar, félagsmiðstöðvar, félagsþjónusta, barnavernd o.fl.
c. Einkaaðilar - t.d. frístundaþjónusta, einkareknir skólar, íþrótta- og tómstundafélög o.fl.

Hlutverk þjónustuveitenda:

  • Þeim ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld barns við framkvæmd verkefna sinna.
  • Þeir skulu leitast við að uppbygging, skipulag og framkvæmd farsældarþjónustu taki mið af gagnreyndri þekkingu
  • Þeir skulu leitast við að þjónusta sé veitt í samráði við og með þátttöku notenda þjónustunnar.
  • Þeir skulu hafa góða almenna samvinnu sín á milli með áherslu á þverfaglega þekkingu og gagnkvæma fræðslu.
  • Þeim ber skylda til að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt á fullnægjandi hátt og bregðast við þeim.
  • Þeim ber skylda til að taka þátt í því samstarfi sem nánar er mælt fyrir um í farsældarlögum.

STIGSKIPTING ÞJÓNUSTU

Þjónusta við börn er stigskipt í þrjú stig:

Fyrsta stig: Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum. Snemmtækur stuðningur er veittur og fylgt eftir á markvissan hátt.
Dæmi: Ung- og smábarnavernd, leikskóli, grunnskóli, almenn heilbrigðisþjónusta ofl.

Annað stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns.
Dæmi: Sérkennsla í skóla, einstaklingsbundinn stuðningur við barn, færniþjálfun ofl.

Þriðja stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns.
Dæmi: Innlögn á sjúkrahús eða meðferðarstofnun, greining hjá sérfræðingum t.d. Ráðgjafar- og greiningarstöð, barnaverndarþjónusta ofl.

Leitast skal við að veita sérhæfðari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.

TENGILIÐIR

Frá fæðingu barns, eða eftir atvikum á meðgöngu, eiga foreldrar og börn rétt á þjónustu tengiliðar eftir því sem þörf krefur. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns.

Tengiliður er einstaklingur í nærumhverfi barnsins:

Foreldrar og eftir atvikum barn geta ávallt leitað sjálf til tengiliðar í nærumhverfi barnsins og óskað eftir samþættri þjónustu.

Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilbrigðisstofnunar.

Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Ef það á ekki við er tengiliður starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barn á lögheimili.

Tengiliðir í Fjallabyggð eru eftirfarandi:

Félagsþjónusta Fjallabyggðar

Fyrir börn á aldrinum 16-18 ára sem ekki eru nemendur í framhaldsskóla

Helga Helgadóttir                                                                        helgah@fjallabyggd.is

Grunnskóli Fjallabyggðar

Erla Gunnlaugsdóttir, fyrir börn í 1. - 5. bekk                               erlag@fjallaskolar.is

Margrét Guðmundsdóttir, fyrir börn í 6. - 10. bekk                     margret@fjallaskolar.is 

Eyðublað - Beiðni forráðamanns um samtal við tengilið í grunnskóla

Leikskóli Fjallabyggðar

Kristín Hólm Hafsteinsdóttir                                                      kristinholm@fjallaskolar.is

Sigurbjörg H. Steinsdóttir                                                           sigurbjorgs@fjallaskolar.is               

Eyðublað - Beiðni forráðamanns um samtal við tengilið í leikskóla    

Heilsugæsla:

Elín Arnardóttir                                                                            elin.arnardottir@hsn.is

Elfa Sif Kristjánsdóttir                                                                 elfa.sif.kristjansdottir@hsn.is

Guðrún Helga Kjartansdóttir                                                     gudrun.helga.kjartansdottir@hsn.is

Dagný Sif Stefánsdóttir                                                              dagny.sif.stefandsottir@hsn.is

Menntaskólinn á Tröllaskaga

Hólmar Hákon Óðinsson                                                           holmar@mtr.is

 MÁLSTJÓRI

Barn sem hefur þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma fær málstjóra frá félagsþjónustu eða barnavernd. Hlutverk málstjóra er að veita frekari upplýsingar og ráðgjöf en tengiliður gerir og leiða samþættingu þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi. Málstjóri leiðir einnig stuðningsteymi.

Stuðningsteymi er vettvangur þar sem þjónustuveitendur og eftir atvikum þeir sem veita barni almenna þjónustu eiga samstarf um samþættingu þjónustunnar. Stuðningsteymi gerir einstaklingsbundna stuðningsáætlun og fylgir henni eftir.

Málstjóri félagsþjónustu Fjallabyggðar: Helga Helgadóttir; helgah@fjallabyggd.is

MIÐLUN UPPLÝSINGA

Almennt er óheimilt að miðla persónugreinanlegum upplýsingum á milli stofnana og fagaðila sem koma að málefnum barna. Með sérstöku leyfi og útfyllingu á meðfylgjandi eyðublaði er veitt heimild til þess að miðla slíkum upplýsingum. Sjá nánari skýringar á bakhlið.

Eyðublað: Beiðni um miðlun upplýsinga til tengiliðar/málstjóra og vinnslu persónuupplýsinga skv. 15. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021*

Ávallt þarf að leggja mat á tilgang og nauðsyn á miðlun upplýsinga á grundvelli samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna. Þetta á m.a. við um trúnað og miðlun upplýsinga milli kerfa. Því er mikilvægt að persónuverndarfulltrúar þjónustuveitenda séu með í verkefninu, sem er einnig í höndum Barna- og fjölskyldustofu.

TILKYNNINGARSKYLDA TIL BARNAVERNDAR

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna koma ekki í stað lögbundinnar tilkynningarskyldu til barnaverndar. Hafa þarf í huga að sumar upplýsingar um aðstæður barns eru með þeim hætti að mikilvægt er að tilkynna þær strax til barnaverndar. Leiðbeiningar til foreldra um tengiliði og miðlun upplýsinga til tengiliða leysa tilkynningarskylduna ekki af hólmi.

TENGLAR

Eyðublöð: